Ertu að leita að nýju verkefni fyrir heimspekihópana þína eða viltu prófa eitthvað nýtt í lífsleikni?
Neðst í Fréttabréfinu eru ábendingar um skemmtileg verkefni í Verkefnabanka Heimspekitorgsins

Fréttabréf heimspekikennara nr. 22, janúar 2020

✦ ✦ ✦
Frá Félagi heimspekikennara

Stjórn Félagsheimspekikennara óskar félagsmönnum og samstarfsaðilum gleðilegs árs.

Norræn samtök um heimspekilega ráðgjöf, sem Félag heimspekikennara er aðili að, halda tíundu ráðstefnu sína, í Brandbjerg Højskole á Jótlandi í Danmörku, dagana 22.-24. maí 2020.

Ráðstefnan verður auglýst nánar á Fb síðu samtakanna og munum við líka segja frá henni þegar nær dregur.

Margt er á döfinni á vettvangi Félags heimspekikennara á þessu ári. Til stendur að endurtaka Dialogos-vinnustofu með þeim Guro Hansen Helskog og Michael Noah Weiss, en þau komu til landsins í september sl. í boði félagsins. Dagsetning þessarar vinnustofu verður auglýst nánar síðar.

Á þessu ári verður einnig blásið til ráðstefnu um heimspekilega samræðu, listir og mannkostamenntun. Ráðstefnan verður haldin á tveimur dögum í vikunni 9.-16. ágúst og meðal aðalfyrirlesara á henni verða David Carr, prófessor emeritus frá Edinborgar-háskóla í Skotlandi, og Adam Wallenberg, list- og heimspekikennari frá Svíþjóð.

Aðalfundur Félags heimspekikennara 2019-2020 verðu haldinn miðvikudaginn 29. janúar, þar sem kosin verður ný stjórn, og er greint frá dagskrá fundarins neðar í þessu fréttabréfi.

Gleðilegt árið 2020!

Aðalfundur 2019-2020

Aðalfundur miðvikudaginn 29. janúar, kl. 18:30

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn 29. janúar, 2020, kl. 18.30-20.00 í Græna salnum, Verzlunarskóla Íslands, Ofanleiti 1 í Reykjavík.

Dagskrá hefst með erindi Ólafs Stefánssonar. Eftir kaffihlé verður síðan aðalfundur haldinn með hefðbundinni dagskrá.

Dagskrá fundarins:

18:30 Heimskingi.
Ólafur Stefánsson sögumaður og heimspekingur götunnar miðlar af reynslu og innsýn.

19.00 Kaffi

19.15 Aðalfundur
           Skýrsla stjórnar
           Reikningar félagsins
           Kosningar
           Önnur mál

Framboð í stjórn og ósk um önnur mál verða að hafa borist stjórn Félags heimspekikennara fyrir fundinn. Framboð berist í netfangið heimspekikennarar@gmail.com

Hér má nálgast Facebook-síðu viðburðarins, þar sem hægt er að staðfesta mætingu.


Kallað eftir efni
Sendið okkur örstutta línu á netfangið 
heimspekikennarar@gmail.com, þar sem þið greinið frá ykkar starfi. Eins, megið þið segja frá áhugaverðum póstlistum, greinum og/eða kennsluefni sem þið kunnið að hafa rekist á.

Hér má skoða eldri tölublöð fréttabréfsins.

Grunnþættir mannkosta og dygða

Jason Buckley starfar við að breiða út heimspeki og heimspekilega nálgun yfirleitt í skólum og heldur úti heimasíðunni thephilosophyman.com þar sem hægt er að nálgast sumt af efninu hans. Þar er líka hægt að skrá sig á póstlista og þá sendir hann manni reglulega nýjar hugmyndir fyrir kennslu.

Í nýjasta fréttabréfinu setur hann fram spurningar sem nota má í heimspekilegri samræðu til þess að efla mannkosti og dygðir. Spurningarnar byggir hann á hugmyndafræði Jubilee-rannsóknarmiðstöðvarinnar fyrir mannkosti og dygðir við Háskólann í Birmingham, þar sem meðal annarra Kristján Kristjánsson prófessor í heimspeki starfar.

Dæmi:

Dygð            
Sjálfræði       

Skilgreining
Athöfn sem framkvæmd er að eigin frumkvæði, án atbeina annarra 

Spurning
Hvernig getur verið betra að gera eitthvað sjálfur heldur en að láta gera það fyrir mann?

- - -

Í nýjasta tölublaði Hugar – tímarits um heimspeki (29/2019) birtist viðtal sem Kristian Guttesen tók við Kristján Kristjánsson, sem varð sextugur á síðastliðnu ári, undir yfirskriftinni „Mér fellur núorðið betur við hlutverk Sansjós Pansa …“

✦ ✦ ✦
Úr Verkefnabanka Heimspekitorgsins


Sögur af Nasreddin Hodja

Sögurnar af Nasreddin eru jafn frægar í Tyrklandi og sögurnar af Bakkabræðrum eru á Íslandi. Þær eru úrvals hráefni í heimspekilegar vangaveltur og rannsóknir vegna þess að þær sýna okkur óvæntar hliðar á mannlegri hegðun. Oft sýna sögurnar þau atvik sem við mennirnir viljum helst fela og gleyma. Vegna þess að sögurnar hafa oft óvæntan endi þá er upplagt að biðja nemendur um að túlka þær og tvinna samræðu út frá ólíkum túlkunum þeirra. Lesa meira ›

Samræða í dagsins önn: jafnrétti

Samskipti kynjanna er viðfangsefni þessa verkefnis en það er hitamál í víða í hinum vestræna heimi. Þegar slík málefni eru tekin til umræðu í hópi unglinga spretta fram sterkar skoðanir, fordómar, staðalímyndir og hugsjónir. Oft verður umræðan tilfinningaþrungin og aðilar stilla sér upp í andstöðu hverjir við aðra. Það er meðal annars þess vegna sem þessi æfing er mikilvæg og á brýnt erindi til unglinga í dag. Lesa meira ›

Heimspeki bland-í-poka

Til að búa nemendur undir að taka þátt í samræðu alls bekkjarins er gott að gera skemmtilegar æfingar þar sem nemendur tala saman í minni hópum eða pörum. Heimspeki bland í poka er slíkur leikur og hér eru gefnar tvær útgáfur af leiknum. Í seinna tilbrigðinu er unnið út frá myndum og hægt er að nota þennan leik með mjög ungum heimspekinemendum. Lesa meira ›

 

facebookhomepage

Afskráning af póstlista | 
Vefútgáfa fréttabréfsins

Já takk, skrá mig á póstlista fréttabréfsins! ☺

Merki Félags heimspekikennara: Ingimar Waage
Mynd í haus: Kristian Guttesen

Sent with Get a Newsletter